[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Resa Sja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Pahlavi-ætt Keisari Írans
Pahlavi-ætt
Resa Sja
Resa Sja Pahlavi
رضا شاه پهلوی‎
Ríkisár 15. desember 192516. september 1941
SkírnarnafnResa Kan
Fæddur15. mars 1878
 Alasht, Savad Kooh, Mazandaran, Persíu
Dáinn26. júlí 1944 (66 ára)
 Jóhannesarborg, Suður-Afríku
GröfAl-Rifa'i-moska, Kaíró
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Abbas-Ali
Móðir Noush-Afarin
EiginkonurMaryam Khanum
Tadj ol-Molouk
Qamar ol-Molouk
Esmat ol-Molouk
Börn11, þ. á m. Múhameð Resa Pahlavi

Resa Sja Pahlavi (persneska: رضا شاه پهلوی‎; 15. mars 1878 – 26. júlí 1944), yfirleitt bara kallaður Resa Sja, var keisari (persneska: sja) Írans frá 15. desember 1925 þar til hann neyddist til þess að segja af sér þann 16. september 1941 í kjölfar innrásar Breta og Sovétmanna í Íran í seinni heimsstyrjöldinni. Stjórn hans átti töluverðan þátt í því að nútímavæða Íran og skapa heilsteypta, íranska þjóðernisvitund.

Resa Sja fæddist undir nafninu Resa Kan í héraðinu Mazandaran við Kaspíahaf. Héraðið var hluti af Persíu, sem þá laut yfirráðum Kadjar-keisaraættarinnar. Resa Kan var þó úr fátækri, tyrkneskumælandi fjölskyldu og átti ávalt eftir að tala persnesku með áberandi tyrkneskum hreim.[1] Resa Kan missti föður sinn ungur að aldri og móðir hans flutti með hann til Teheran.[2] Resa gekk í herinn og varð meðlimur í sérstakri Kósakkaherdeild að rússneskri fyrirmynd þegar hann var sextán ára.

Í fyrri heimsstyrjöldinni hertóku bæði Rússar og Bretar Persíu. Rússar höfðu sig á brott eftir að bylting braust út í Rússlandi árið 1917 en Bretar sátu áfram og réðu Persíu í reynd á bak við tjöldin. Árið 1921 braust Kósakkaherdeildin hins vegar til valda í landinu og Resa Kan varð varnarmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Hann vann sig smám saman hærra upp metorðastigann og var orðinn forsætisráðherra landsins árið 1923.[3]

Valdatíð (1925–1941)

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1923 taldi Resa Kan keisara Persíu, Ahmad Sja Kadjar, á að yfirgefa landið og fara til Evrópu í „veikindaleyfi“. Keisarinn hlýddi honum og kom aldrei aftur. Tveimur árum eftir brottför keisarans lýsti Resa sjálfan sig nýjan keisara landsins undir nafninu Resa Sja Pahlavi.

Sem keisari landsins lét Pahlavi fella úr gildi ýmis íslömsk lög og setti þeirra í stað veraldleg lög sem sniðin voru að franskri fyrirmynd. Hann skipaði nýja dómara í stað klerka til þess að fara með dómsvald í opinberum málum og þjóðnýtti jarðeignir trúarlegra stofnana.[4] Pahlavi var mjög í nöp við klerkastétt landsins og gerði allt sem hann gat til að stemma stigu við valdi þeirra. Meðal annars studdi hann iðkun hinna fornu persnesku trúarbragða, Sóróisma, í stað íslams í landinu,[5] og ræktaði nýja íranska þjóðernishyggju þar sem áhersla var lögð á glæsta fortíð Persaveldis fyrir tíma íslams. Sérstaklega var áhersla lögð á arfleifð heimsveldis Sassanída og á landvinninga Kýrosar mikla til forna.[2]

Pahlavi stóð fyrir því að farið var að tala um landið á alþjóðavettvangi sem Íran frekar en Persíu. Íran hafði verið nafn innfæddra fyrir landið í margar aldir en erlendis var nafnið Persía oftar notað til ársins 1935. Áherslan á nafnið Íran, sem merkir „land aríanna“, var liður í því að leggja áherslu á stöðu Írans sem indóevrópskrar þjóðar sem ætti meira sameiginlegt með þjóðum Evrópu en með arabískum og tyrkneskum múslimaþjóðum.[2]

Pahlavi lét leggja niður íslamska dagatalið og tók þess í stað upp sérstakt íranskt dagatal sem Íranir nota enn í dag. Nýja dagatalið er sólardagatal sem byggir að nokkru leyti á Sóróisma. Dagatalið notar þó árið 622, árið sem Múhameð spámaður flúði frá Mekka til Medína, sem upphafsár, og því var ekki alfarið horfið frá íslömskum hefðum með nýja dagatalinu. Pahlavi skipti sér einnig af klæðaburði þegna sinna og beitti sér fyrir því að íranska þjóðin skyldi klæðast að hætti vesturlandabúa. Keisarinn setti lög sem skylduðu karlmenn til þess að klæðast vestrænum fötum og skyldaði þá til að ganga með sérstaka Pahlavi-hatta og síðan með vestræna fedora-hatta. Árið 1936 setti Pahlavi lög sem bönnuðu konum blátt áfram að bera slæður fyrir utan heimilið. Þessi lög áttu eftir að reynast óvinsæl þar sem ríkisstjórn Pahlavi beitti ofstækisfullum aðferðum til þess að láta framfylgja þeim og lögreglumenn rifu gjarnan slæður af konum sem létu sjá sig með þær á almannafæri. Íhaldssamar fjölskyldur bönnuðu dætrum sínum því oft að fara út úr húsi og konur sem ósamþykkar voru lögunum einangruðu sig heima frekar en að láta hafa af sér slæðuna.[6]

Á millistríðsárunum ræktaði Pahlavi náið samband við Þýskaland nasismans, einkum til að skapa mótvægi gegn áhrifum Breta í Íran og til þess að fjármagna nútímavæðingu ríkisins. Þegar seinni heimsstyrjöldin hófst viðhélt Pahlavi formlega hlutleysi, en vinskapur hans við Þjóðverja leiddi til þess að Bretar og Sovétmenn gerðu innrás í Íran árið 1943 og steyptu honum af stóli. Pahlavi hafði verið Bretum óþjáll og því settu þeir á valdastól son hans, Múhameð Resa Pahlavi, sem reyndist þeim samvinnuþýðari, og átti eftir að ráða yfir Íran fram til írönsku byltingarinnar árið 1979.

Resa Sja flutti í útlegð til Suður-Afríku og lést þar árið 1944.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
Heimildir
  • Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning.
Tilvísanir
  1. Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 103.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Fall Pahlavi-ættarinnar“. Þjóðviljinn. 26. janúar 1979. Sótt 21. janúar 2019.
  3. Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 104
  4. Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 108.
  5. Dagur Þorleifsson (16. nóvember 1971). „Frá Múhameð til Pahlavi“. Tíminn. Sótt 22. janúar 2019.
  6. Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð, bls. 110.


Fyrirrennari:
Hassan Pirnia
Forsætisráðherra Írans
(28. október 19231. nóvember 1925)
Eftirmaður:
Mohammad Ali Foroughi
Fyrirrennari:
Ahmad Sja Kadjar
Íranskeisari
(15. desember 192516. september 1941)
Eftirmaður:
Múhameð Resa Pahlavi