Vín
Vín er áfengur drykkur, sem fæst með því að gerja vínberjasafa. Ef aðrir ávextir eru notaðir kallast vínið ávaxtavín.
Flokkar víns
[breyta | breyta frumkóða]Vín eru yfirleitt flokkuð eftir lit, þ.e. hvítvín, rósavín (roðavín), og rauðvín, og liggur munur vínanna að miklu í mismunandi aðferðum við gerð þeirra. Hvítvín er hægt að laga úr hvaða vínþrúgum sem er, ljósum eða dökkum, þar sem safi langflestra þrúgutegunda er litlaus að mestu. Berin eru kramin og hýðið skilið frá vökvanum, til að enginn litur skili sér í vínið. Við rauðvínsgerð er eingöngu hægt að nota dökkar þrúgur, og er hýði þeirra látið gerjast með safanum, en við það leysast litarefnin í hýðinu upp og lita safann. Því lengri tíma sem hýðið er í snertingu við safann, því dekkra verður vínið. Rósavín er gert með sömu aðferð og rauðvín, en hýðið skilið frá gerjandi vökvanum eftir mun styttri tíma.
Freyðivín eru gerð eins og venjulegt vín, nema að eftir venjulega gerjun fer fram önnur (seinni) gerjun, venjulega í flösku, eða þrýstitanki, þar sem koltvísýringur sem myndast við gerjunina fær ekki að sleppa út í andrúmsloftið, heldur þrýstist inn í vínið og gerir það freyðandi.
Styrkt vín eru svo vín, þar sem vínandinn hefur verið aukinn með því að bæta hreinum spíra eða brandíi saman við. Yfirleitt hafa þessi vín vínandastyrk á bilinu 15 til 20%
Vínþrúgur
[breyta | breyta frumkóða]Vínþrúgur eða vínber, er ávöxtur vínviðar, en þessi ávöxtur er sá allra hentugasti til víngerðar, þar sem sæta og sýra eru í réttu magni til að geta gefið af sér góðan drykk í góðu jafnvægi. Aðrir ávextir eru ekki eins heppilegir, sítrusávextir eru of súrir og ekki nógu sætir, meðan melóna er ekki nógu súr og ekki nógu sæt, o.s.frv. Þrúgur notaðar til víngerðar eru flestallar af tegundinni Vitis vinifera, en undirtegundirnar skipta þúsundum. Sjá nánar kaflann vínber og Vitis vinifera.