Jürgen Habermas
Vestræn heimspeki Heimspeki 20. aldar, Heimspeki 21. aldar | |
---|---|
Nafn: | Jürgen Habermas |
Fæddur: | 18. júní 1929 |
Skóli/hefð: | meginlandsheimspeki |
Helstu viðfangsefni: | siðfræði, félagsleg heimspeki, stjórnspeki, þekkingarfræði, málspeki |
Markverðar hugmyndir: | Samræðusiðfræði |
Áhrifavaldar: | Max Weber, Karl Marx, Wilhelm Dilthey, Immanuel Kant, Martin Heidegger, Max Horkheimer, Hannah Arendt, Charles Sanders Peirce, J.L. Austin |
Hafði áhrif á: | Nancy Fraser, Axel Honneth, Lutz Wingert, Georg Henrik Von Wright |
Jürgen Habermas (borið fram ˈjʏʁgən ˈhaːbɐmaːs; fæddur 18. júní 1929 í Düsseldorf í Þýskalandi) er þýskur heimspekingur og félagsfræðingur. Hann er ásamt Karl-Otto Apel frumkvöðull hins nýja Frankfurtarskóla. Hann hefur tekið virkan þátt í fræðilegum og pólitískum umræðum um áratuga skeið.
Heimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Þekking og hagsmunir
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1968 kom út heimspekirit eftir Habermas sem nefnist Þekking og hagsmunir (þ. Erkenntnis und Interesse). Þar segir Habermas að þekkingarmótandi hagsmunir séu skilyrði fyrir möguleikanum á þremur gerðum vísinda. Þessir hagsmunir virka sumpart eins og formin í kenningu Kants sem skapa skilyrði fyrir möguleika á þekkingu. Þannig hafi hagsmunirnir forskilvitlega stöðu (e. transcendental status).
Til þess að menn geti yfirleitt þrifist og leitað þekkingar verða þeir að geta fullnægt þörfum sínum fyrir næringu, húsaskjól og svo framvegis. Menn hafa hag af því að fullnægja þessum frumþörfum en þeir verða að vinna til að svo megi verða. Þessa hagsmuni nefnir Habermas „tæknilega þekkingarhagsmuni“ (þ. technische Erkenntnisinteresse). Þeir geri náttúruvísindin möguleg. Það þýðir ekki að hann telji þau vísindi ambátt tækninnar heldur að rökgerð vísindakenninga sé stofnskyld rökgerð tæknilegra athafna. Lögmálsskýring í náttúrvísindum hefur rökgerðina „ef X gerist þá gerist Y líka“, tæknileg athöfn hefur formgerðina „ef ég geri X þá get ég orsakað Y“. Að vinna er að breyta með tæknilegum hætti. Og er við stundum náttúruvísindi sjáum við heiminn frá sjónarhorni vinnu og tæknilegra þekkingarhagsmuna og getum ekki annað, þetta sjónarhorn gerir náttúruvísindin (og sum félagsvísindi) möguleg.
Ekki er nóg að vinna einn og sér til að fullnægja frumþörfum sínum, menn verða að geta unnið saman. Án boðskipta er engin samvinna, án boðskipta ekkert sjálf. Sjálfið er boðskiptakyns, að hugsa er að tala við sig sjálfan, stunda boðskipti við sjálfan sig. Og börn sem alist hafa upp án mannlegra samskipta eru sem dýr, hafa ekkert sjálf. Án sjálfs erum við ekki menn, því höfum við (sem menn) hag af boðskiptum. Burðarás vinnunar er tækniskynsemi, hyggindi sem í hag koma, burðarás boðskipta er sættir, við getum ekki stundað boðskipti nema að vera að minnsta kosti sammála um merkingu táknanna sem notuð eru. Forsenda allrar samræðu er sú að við viðurkennum í reynd rétt hvers manns til að tala og séum í reynd sammála um ákveðnar leikreglur um samræður. Þannig tengjast boðskipti siðferðinu.
Habermas tekur undir þá staðhæfingu Hans-Georgs Gadamers að það að túlka texta sé eins og að taka þátt í samræðu. Og meginstarf hugsvísindamannsins felst í textatúlkun. Öll túlkun lýtur lögmálum samræðunnar sem aftur eru siðtengd. Hagsmunir manna af boðskiptum marka hugvísindum bás. Þá hagsmuni nefnir Habermas „virka þekkingarhagsmuni“ (þ. praktische Erkenntnisinteresse). Hið siðtengda við textatúlkun gerir að verkum að hugvísindi geta aldrei verið algerlega hlutlaus um siðferði. Auk þess getur textatúlkun breytt þeim sem túlkar um leið og túlkun hans breytir textanum. Lestur á Konungasögum Snorra Sturlusonar skóp norska þjóðernisvitund, breytti íbúum Noregs í Norðmenn. Um leið túlkuðu þeir Konungasögurnar með öðrum hætti en samtímamenn Snorra, hin eina rétt túlkun er ekki til (þetta hefur Habermas frá Gadamer).
Habermas talar um „frelsandi vísindi“ sem hafi hagsmuni okkar af sjálfræði að leiðarljósi. Hann talar um „þekkingarhagsmuni af frelsun“ (þ. emanzipatorische Erkenntnisinteresse). Þau beita orsakaskýringum en með öðrum hætti en náttúruvísindin. Þekking á lögmálum sem stjórna samfélögum geta leitt til þess að lögmálin missi mátt sinn, hverfi. Kona sem innhverft hefur mynd karlrembusamfélagsins af konum og er hreinræktuð undirlægja getur losað sig við undirlægjuháttinn ef hún uppgötvar að karlrembumyndin af konum er ekki náttúrulögmál. Sannleikurinn getur frelsað konuna úr fjötrum karlrembusamfélagsins. En hvaða vísindi eru frelsandi? Marxismi, rétt skilinn, og sálgreining, rétt skilin. Habermas hefur verið hljóður um þessa kenningu í nærfellt fjóra áratugi enda er hún í langsóttasta lagi.
Rökræða og siðferði
[breyta | breyta frumkóða]Öllu meiri veigur er í hinni svonefndu rökræðusiðferði (þ. Diskursethik) sem Habermas þróaði í félagi við Karl-Otto Apel. Samkvæmt henni eru viðurkenning á einhvers konar siðaboðum byggð í inn í formgerð rökræðna. Við getum ekki rökrætt nema það sé reglan en ekki undantekningin að við séum sannferðug, lítum á okkur sjálf og viðmælanda sem sjálfráða verur og svo framvegis. Ef við beittum stöðugt orsakaskýringum á öllu sem við og viðmælendur okkar segja þá hættir samræðan að vera samræða og verður einræða, jafnvel rugl. Þannig virðum við í reynd sjálfræði okkar sjálfra og annarra með því að taka þátt í rökræðum. Þessar meginreglur rökræðunnar eru byggðar inn í rökgerð samræðna, við getum ekki talað saman í gríni nema að hægt sé að rökstyðja að við séum að grínast. Rökstuðningur vísar til rökræðu, ekki er hægt að rökstyðja neitt án þess að geta varið rökstuðning í rökræðu. Sem sagt, samræðan hefur reglur rökræðunnar að forsendu. Og eins og áður segir er hugsunin samræðukyns, því getum við ekki flúið samræðuna og siðaboð hennar nema með því að hætta að vera menn.
Habermas telur að grundvöllur siðferðisins séu sættir um siðaboð sem til verði í krafti opinnar og óþvingaðrar samræðu frjálsra, sjálfráðra manna sem hafa fullkomna yfirsýn yfir alla kosti. Líkurnar á því að slíkt muni verða eru hverfandi en virkar sem reglugefandi hugmynd (þ. regulative idee).
Í stuttu máli segir Habermas að siðferðið byggi á tveimur meginboðum. Í fyrsta lagi grunnboði rökræðunnar (D): „Siðaboð getur aðeins gert kröfu til að teljast réttmætt siðaboð svo fremi allir sem mögulega mun varða siðaboðið geti sammælst um réttmæti þess í virkri rökræðu.“ Hitt meginboðið er alhæfingarrgelan (U). Sérhvert réttmætt siðaboð verður að fullnægja eftirfarandi skilyrði: að beinar og óbeinar afleiðingar fyrir hag einstaklinga sem fyrirsjáanlegar eru verði siðaboðinu allmennt fylgt séu viðanandi fyrir þessa einstaklinga og að þeirra mati betra en ef annað siðaboð væri gert að allmennri reglu.
Síðari ár
[breyta | breyta frumkóða]Habermas hefur lagt gjörva hönd á margt síðustu árin, þróað nýja kenningu um lýðræðið, tekið þátt í umræðum um trúarbrögð og framtíð Evrópusambandsins. Hann hefur losað sig við róttækni æskuáranna og er í dag eindreginn Evrópusinni og jafnaðarmaður.