[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Constantius 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Constantius 2.
Rómverskur keisari
Valdatími 337 — 361
með Constantinusi 2. (337 – 340),
með Constansi (337 – 350)

Fæddur:

7. ágúst 317
Fæðingarstaður Sirmium (í núverandi Serbíu)

Dáinn:

3. nóvember 361
Dánarstaður Mopusestia (í núverandi Tyrklandi)
Forveri Konstantínus mikli
Eftirmaður Julianus
Maki/makar Eusebia
Faustina
Börn Flavia Maxima Constantia
Faðir Konstantínus mikli
Móðir Fausta
Fæðingarnafn Flavius Julius Constantius
Ætt Konstantínska ættin

Constantius 2. (7. ágúst 3173. nóvember 361) var keisari Rómaveldis á árunum 337 til 361.

Constantius 2. var sonur keisarans Konstantínusar mikla og Faustu, dóttur Maximianusar. Constantius varð keisari árið 337, að föður sínum látnum, ásamt bræðrum sínum Constantinusi 2. og Constansi. Rómaveldi var þá skipt í þrennt á milli þeirra og stjórnaði Constantius austasta hluta ríkisins með Konstantínópel sem höfuðborg. Bræður hans hófu fljótlega að deila sín á milli sem endaði með því að Constantinus var drepinn árið 340 og Constans tók við stjórn allra þeirra landsvæða sem Constantinus hafði stjórnað. Þessi skipting milli Constantiusar og Constans, þar sem Constantius stjórnaði þriðjungi ríkisins og Constans tveimur þriðju, hélst til ársins 350 þegar Constans var myrtur af liðsmönnum hershöfðingjans Magnentiusar, sem í kjölfarið lýsti sjálfan sig keisara. Constantius var á þessum tíma upptekinn við að verjast árásum Sassanída úr Persíu, en ákvað engu að síður að halda vestur á bóginn og mæta Magnentiusi. Það tók Constantius þrjú ár að ráða niðurlögum Magnentiusar sem, eftir að hafa tapað tveimur stórum orrustum, framdi sjálfsmorð í ágúst 353. Þó Constantius hafi eftir þetta verið einn keisari yfir öllu heimsveldinu þurfti hann að berjast gegn nokkrum fleiri valdaræningjum auk þess sem hann þurfti að verjast árásum germana. Þetta varð til þess að hann skipaði frænda sinn Julianus sem undirkeisara (caesar) og fól honum að stjórna vesturhluta Rómaveldis. Constantius sneri sér þá aftur að því að halda Sassanídum í skefjum en Julianus varðist árásum Alemanna í Gallíu. Árið 360 var Julianus hylltur sem keisari (augustus) af herdeildum sínum í Lutetiu (París). Constantius leit á þetta sem valdarán og hugðist halda vestur á bóginn til að takast á við frænda sinn, en á leiðinni, árið 361, veiktist Constantius og lést. Á dánarbeðinu viðurkenndi hann Julianus sem réttmætan erfingja sinn.

Constantius 2. var kristinn eins og faðir hans, en virðist hafa aðhyllst einhverja útgáfu af Aríanisma. Constantius gerði kristnu klerkastéttinni hátt undir höfði og gaf út tilskipanir henni í hag; til dæmis þurftu kristnir klerkar ekki að greiða skatta eða gegna samfélagsþjónustu eins og aðrir þegnar ríkisins. Constantius var þó ekki sérstaklega harður adstæðingur hinna hefðbundnu grísk-rómversku trúarbragða og hélt titlinum pontifex maximus sem þýddi að hann var, að minnsta kosti að nafninu til, æðsti yfirmaður gömlu trúarbragðanna.


Fyrirrennari:
Konstantínus mikli
Keisari Rómaveldis
(337 – 361)
Eftirmaður:
Julianus